Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tveir Suðurnesjamenn í bráðabirgðastjórn KSÍ
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 1. október 2021 kl. 14:28

Tveir Suðurnesjamenn í bráðabirgðastjórn KSÍ

Bráðabirgðastjórn KSÍ verður sjálfkjörin á sérstöku aukaþingi sem fer fram laugardaginn næstkomandi. Tveir Suðurnesjamenn gáfu kost á sér í stjórn, þau Guðlaug Sigurðardóttir (Suðurnesjabæ) og Unnar Stefán Sigurðsson (Reykjanesbæ), og koma þau til með að skipa bráðabirgðastjórn fram að næsta knattspyrnuþingi sem verður haldið í febrúar á næsta ári.

Knattspyrnukonan fyrrverandi, Vanda Sigurgeirsdóttir, er ein í framboði til formanns en engin mótframboð bárust í formannssætið. Aðrir sem bjóða sig fram eru Ásgrímur Helgi Einarsson (Reykjavík), Borghildur Sigurðardóttir (Kópavogi), Guðlaug Helga Sigurðardóttir (Suðurnesjabæ), Helga Helgadóttir (Hafnarfirði), Ingi Sigurðsson (Vestmannaeyjum), Sigfús Kárason (Reykjavík), Unnar Stefán Sigurðsson (Reykjanesbæ) og Valgeir Sigurðsson (Garðabæ). Í varastjórn buðu sig fram þau Kolbeinn Kristinsson (Reykjavík), Margrét Ákadóttir (Akranesi) og Þóroddur Hjaltalín (Akureyri).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðlaug Sigurðardóttir, betur þekkt sem Gullý Sig, er fædd og uppalin í Garðinum (Suðurnesja-bæ) og kemur frá mikilli fótboltafjölskyldu. „Ég hef kynnst fótboltanum frá öllum hliðum fótboltans í gegnum Knattspyrnufélagið Víði Garði alveg frá barnæsku. Hef verið leikmaður, þjálfari, stjórnarmaður, formaður, foreldri og margt fleira. Ég legg mikinn metnað í það sem ég tek mér fyrir hendur og tel mig geta nýtt krafta mína fyrir KSÍ,“ segir Guðlaug í tilkynningu um framboðið.

Unnar Stefán Sigurðsson er fæddur og uppalinn í Neskaupstað en flutti með foreldrum sínum til Keflavíkur á unglingsárunum. „Ég hef stundað fótbolta frá blautu barnsbeini, fyrst sem leikmaður og svo sem þjálfari. Ég hef spilað með nokkrum klúbbum hér á landi; Keflavík, Breiðablik, Skallagrím og Tindastól sem og með Strömsgodset og Drafn í Noregi, þá hef ég að mestu þjálfað fyrir Keflavík að undanskildum nokkrum árum með FH. Ég kem af mikilli fótboltafjölskyldu, pabbi spilaði fótbolta í mörg ár sem og föðurafi minn, sem þjálfaði yngri flokka Keflavíkur á miðri síðustu öld,“ segir Unnar og bætir við að sér finnist verkefnið hjá KSí áhugavert en krefjandi og segist vera tilbúinn að takast á við það sem kemur. „Ég hef mikinn metnað fyrir íslenskri knattspyrnu, sem að ég hef fylgst með í mörg ár og ég tel að sambandið geti nýtt krafta mína.“